1-2.VERÐLAUN: HERMINJAR Í HLÍÐNNI

skotbyrgi

Vinningstillaga í hugmyndasamkeppni um framtíð Öskjuhlíðar haustið 2012.

Tillagan felst í að :

Varðveita og hlúa að herminjum frá seinna stríði sem finnast í Öskjuhlíðinni.

Miðla sögu þeirra og hlutverki og virkja þær sem hluta af útivistarsvæði Öskjuhlíðarinnar.

Gera Öskjuhlíðina að enn fjölbreyttara og áhugaverðara útivistarsvæði en hún er í dag.

Ísland var hernumið í seinna stríði af Bretum og í framhaldinu Bandaríkjamönnum og sendu þeir fjölmennt setulið hingað til lands. Hernámið hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag og skapar því stóran sess í menningarsögu okkar. Setuliðið skildi eftir sig ýmis mannvirki á víð og dreif um landið og eru mörg þeirra enn varðveitt í dag. Öskjuhlíðin hefur að geyma stóran hluta þessara herminja og á fáum stöðum á landinu marka minjarnar jafn heildstæða mynd og þar og hafa þær því mikið menningarsögulegt gildi.

yfirlitskort

Af herminjum í Öskjuhlíð má meðal annars nefna steypt skotbyrgi, neyðarstjórnstöð, loftvarnarbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, hlaðna varnarveggi fyrir eldsneyti, neðanjarðarvatnstanka, veganet og gólf og grunna undan bröggum og öðrum byggingum. Þessar minjar eru einungis brot af því sem áður var, margar þeirra eru illa á sig komnar í dag sökum vanrækslu og er því mikilvægt að hlúa betur að þeim. Það er því tímabært að hefja umræðu og leggja línurnar fyrir það hvernig þessum hluta sögunnar skuli gerð skil og hvernig standa eigi að varðveislu þessara herminja og miðla þeim til almennings.

Hreinsa þarf til í þessum sögulegu minjum, varðveita þær og laga og gera þær aðgengilegri. Sem dæmi má nefna neyðarstjórnstöðina og skotgröfina sem í dag eru lokaðar og fullar af grjóti og rusli og þaktar veggjakroti. Hægt væri að nýta þær sem leiksvæði fyrir fólk og sameina þannig fræðslu og leik og blása nýju lífi í rústirnar. Sama væri hægt að gera við gömlu grjótnámurnar og varnarmúrana utan um eldsneytistankana. Þar væri upplagt að setja upp nestisaðstöðu eða jafnvel koma upp sviði og nýta þessa staði fyrir hinar ýmsu uppákomur, t.d. tónleika, útileikhús, barnaskemmtanir og fleira.

Áhugavert væri að miðla hlutverki og sögu þessara mannvirkja á lifandi og fjölbreyttan hátt með ólíkum merkjunum og jafnframt að tengja þær saman. Með bættu ástandi, betra aðgengi og grafískri miðlun væri hægt að nýta þessar minjar í upplýsandi leik fyrir stóra sem smáa. 

Til að tengja þær saman mætti koma á fót gönguleið þvert á núverandi stíganet. Þar væri fólk leitt á milli þessara mannvirkja og sögu þeirra og hlutverki miðlað með myndum, grafík og textum á leiðinni. Þetta þyrfti ekki að vera stórt inngrip, heldur mætti notast við tákn og liti til að sameina minjarnar og leyfa síðan forvitnum gestum að uppgötva leyndardóma Öskjuhlíðarinnar upp á eigin spýtur.

herminjar

Til að tengja söguna við önnur svæði í kringum hlíðina, Flugvöllinn, Vantsmýrina og Nauthólsvík, þar sem finna má enn fleiri herminjar mætti koma upp útsýnis- og upplýsingaskífu ofar í hlíðinni þar sem vísað yrði á ólíkar herminjar, flugmannvirki, braggahverfi og fleira sem áður var og í sumum tilfellum stendur enn í dag.

Með þessari tillögu verður herminjunum í Öskjuhlíð gert hærra undir höfði en áður og þeim loks veitt verðskulduð athygli þar sem sögu þeirra og hlutverki verður miðlað til fólks á skemmtilegan hátt. Það veitir fullkomið tækifæri til að sameina fræðslu, útivist og leik og nýta útivistarsvæðið á fjölbreyttari hátt en áður og efla það. Þá verður sagan og menningararfurinn aðgengilegri og söguleg tenging við umhverfið okkar aukin.

collageBB