STÖNG

Stangarhóll

Tillaga í samkeppni um nýja yfirbyggingu rústarinnar á Stöng í þjórsárdag og hönnun nánasta umhverfis, sem haldin var haustið 2012.

Í verkefninu eru þrjú meginatriði höfð að leiðarljósi. Að undirstrika og taka tillit til náttúrunnar og kyrrðarinnar á svæðinu. Að draga fram, varðveita og miðla fornleifum svæðisins. Að reisa byggingu til verndar Stangarskálanum sem ber vott um nútímalega byggingarlist og fagurfræði.

Í Þjórsárdal ríkir mikil kyrrð og náttúrufegurð sem veitir gestum alveg sérstaka upplifun þar sem hægt er að komast í snertingu við sögu okkar innan um séríslenska náttúru. Áhersla var lögð á að undirstrika þessa náttúruupplifun, að koma á fót bættu stíganeti með upplýsingamiðlun og að laða fram kosti staðarins með hjálp arkitektúrsins. Unnið er með fjölbreytta og lifandi miðlun um Stöng sem höfðar til ólíkra hópa fólks og er henni dreift um svæðið.

Uppdrattur

Aðalaðkoman er staðsett þar sem núverandi bílastæði eru í dag. Þar verður komið fyrir upplýsingum um svæðið sem heild, gönguleiðir og fornleifar í dalnum, ásamt áningu sem lætur lítið yfir sér. Gestir fá góða yfirsýn yfir svæðið þegar stígurinn hlykkjast að ánni milli steina og gróðurs og endar í nýrri stálbrú með útsýni yfir hólinn. Aðkoma fyrir fatlaða er staðsett við árbakkann og þar er hreinlætisaðstaða sem fellur vel að umhverfinu. Nestissvæðið er staðsett við iðandi lækinn skammt frá. Frá árbakkanum liggja gönguleiðir í gegnum birkiskóginn að Gjánni og öðrum fallegum stöðum í kring. Í lítilli birkilaut skammt frá hefur öðru nestissvæði verið komið fyrir. Þar er upplagt fyrir gönguhópa og útivistarfólk að hittast miðla sögum og reynslu af svæðinu. Höfundar sáu til þess að safna þessari þjónustu saman á einn líflegan stað til að trufla ekki upplifun gesta af kyrrðinni og fornleifunum uppi á hólnum. Við árbakkann mætast stígar frá aðkomusvæðum og sameinast í steyptan stíg. Hann er aðgengilegur fyrir hjólastólanotendur með aðstoð. Stígurinn er stílhreinn og liðast beint upp hólinn og undirstrikar hreyfinguna í landslaginu.

umhverfi

Sneiðingar

Afstöðumynd

Þegar upp á hólinn er komið tekur við bæjarhlað þar sem gestir geta hópað sig saman og fengið yfirsýn yfir svæðið. Þar verður miðlun um fornleifarnar á hólnum sett fram á grafískan hátt á sjálfu hlaðinu. Í stað þess að ganga beint inn í skálann eru gestir leiddir inn á mitt hlaðið og þaðan á milli fornleifa hólsins með nýju stíganeti sem ver viðkvæman jarðveginn fyrir átroðningi.

Fjósið og smiðjan skulu færð í upprunalegt form frá uppgreftri en rústir þeirra verða þó áfram hluti af náttúrunni á hólnum og veita upplifun af hinni áþreifanlegu sögu í landslaginu. Hér er litið til hugmynda John Ruskins um að leyfa náttúrunni að taka yfir með tíð og tíma. Þessum minjum verður miðlað með augljósum stígum sem vísa gestum á þau og gera aðgengilegri. Stígarnir hlykkjast í landslaginu, en taka á sig breytta og skipulagðari mynd í námunda við fornleifarnar, til að vekja athygli á þeim. Til að veita vitneskju um kirkjuna, sem er grafin í jörðu við bæjahlaðið, verður bekkjum sem standa í kross komið fyrir sem vísun í hana.

Stígar

Stangarrústin fær nýja yfirbyggingu sem trónir efst á hólnum eins og áður. Formið á húsinu rammar inn rústina og undirstrikar hana þannig að hægt sé að upplifa hana sem heild. Þar að auki skapar rýmið ekki fölsk rýmisáhrif um rústina sjálfa eins og er raunin í núverandi yfirbyggingu. Húsið samanstendur af stálburðarvirki sem er klætt með ómeðhöndluðum við sem veðrast með tímanum og fellur vel að landslaginu. Yfirbyggingin er byggð til að þola veður og vind á svæðinu og er einangruð svo hún verndi rústina fyrir úrkomu, veðrun og gjóskufalli. Þá krefst þessi lausn lítils viðhalds. Sama efnisval og yfirbragð verður notað í salernisaðstöðuna á svæðinu. Sem vísun í sögu byggðarinnar á Stöng, sem lagðist af vegna eldgosa, er þakið klætt gangsæju en sterku trefjaplasti sem síðan er þakið gjósku. Þá varpar þetta skemmtilegu ljósi á söguna, í bókstaflegum skilningi, þegar ljósið síast í gegnum síbreytilega gjóskuna, fellur á rústina inni í salnum og skapar ævintýralega stemningu.

upplifun

Byggingin er útfærð þannig að sem minnst hnjask verði á fornleifum við framkvæmdir. Skulu þær færðar í upprunalegt horf og rannsakaðar samhliða uppbyggingunni. Höfundar hafa kenningar danska arkitektsins Johannes Exner að leiðarljósi um að hreyfa sem minnst við minjunum. Þá er byggt í kringum þær og tryggt að öll inngrip sé hægt að fjarlægja aftur. Áhersla er lögð á að allt hið nýja skeri sig greinilega frá hinu upprunalega. Ekki er snert við sjálfri Stangarrústinni þegar byggt er í utan um hana og er steyptum pöllum komið fyrir í kringum fornleifarnar með möl á milli. Gestir fá þá yfirsýn yfir rústina og átta sig betur á henni og auk þess sem það vísar til uppruna rústarinnar, að hún hafi verið grafin upp úr jörðu. Gengið er inn þar sem upprunalegur inngangur skálans var og þar hefur gestabók og bauk verið komið fyrir ásamt hnitmiðuðum upplýsinum um Stöng. Þaðan er gesturinn leiddur um svæðið yfir brú, ristar, útskot og stiga. Þetta eykur upplifunina af rústinni, kemur í veg fyrir átroðning og eykur jafnframt virðingu gesta fyrir henni þar sem hægt er að gægjast niður, ganga ofan á og uppgötva sjálfur leyndardóma Stangar. Á svæðinu milli búrs og salernis verður komið upp sýningu til enn frekari miðlunar á sögu, byggingararfleifð og lífsháttum fólksins í Stöng. Unnið er með stýrt útsýni þar sem gróður og ákveðnar jarðmyndanir eru rammaðar inn í glugga skálans til að tengja rústina við upprunalega umhverfi sitt. Notast er við steypu og málma og fellur efnisvalið vel að rústinni en skilur sig samtímis skýrt frá henni.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Helenu Björgvinsdóttur arkitekt.

grunnmynd

skurðmyndir

Aðkoma

 Inni